Grindavík vann grannaslaginn – Hamar tapaði stórt

Tómas Valur Þrastarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn og Grindavík áttust við í hörkuleik í úrvalsdeild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Á sama tíma tók Hamar á móti Álftanesi.

Leikur Þórs og Grindavíkur var jafn og spennandi allan tímann. Þórsarar leiddu 43-40 í hálfleik og þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 64-64. Þá stigu Grindvíkingar upp og náðu 11 stiga forskoti og Þórsarar áttu engin svör á lokamínútunum. Grindavík sigraði að lokum 84-92.

Tómas Valur Þrastarson var stigahæstur Þórsara með 22 stig, Darwin Davis skoraði 19, Nigel Pruitt skoraði 15 stig og tók 10 fráköst og Jordan Semple skoraði 14 stig og tók 10 fráköst.

Það var annað uppi á teningnum í Hveragerði. Eftir jafnan fyrsta leikhluta tóku Álftnesingar öll völd og leiddu í leikhléi, 35-56. Munurinn jókst svo jafnt og þétt allan seinni hálfleikinn og Álftanes sigraði að lokum 67-104.

Franck Kamgain var stigahæstur hjá Hamri með 26 stig og 7 fráköst og Adomis Urbonas skoraði 11 stig og tók 7 fráköst.

Þórsarar eru í 4. sæti deildarinnar með 22 stig en Valsmenn eru með 28 stig á toppnum og eru að stinga önnur lið af. Hamar er áfram á botninum og þarf að vinna alla fimm leikina sem eftir eru ætli þeir að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni.

Fyrri greinToppliðið sigraði botnliðið
Næsta greinEldur í vinnuvél á Stokkseyri