Selfoss er úr leik í bikarkeppni karla í handbolta eftir tíu marka tap gegn Val í 8-liða úrslitum að Hlíðarenda í kvöld.
Selfyssingar grófu sér djúpa holu strax í upphafi leiks því Valur skoraði fyrstu fimm mörk leiksins. Munurinn hélst um og yfir fimm mörkum lengst af fyrri hálfleiks en undir lok hans náði Valur átta marka forskoti, 18-10. Selfoss skoraði tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og staðan var 18-12 í leikhléi.
Selfoss náði ekki að ógna forskoti Vals að ráði í seinni hálfleik. Þeir komu muninum niður í fimm mörk en þá gáfu Valsmenn aftur í og unnu að lokum 36-26.
Hans Jörgen Ólafsson skoraði 6 mörk fyrir Selfoss og Sölvi Svavarsson 6/3. Sæþór Atlason og Gunnar Kári Bragason skoruðu báðir 3 mörk, Hannes Höskuldsson og Sveinn Andri Sveinsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 2/1 og Richard Sæþór Sigurðsson 1.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 8/1 skot í marki Selfoss og Vilius Rasimas 5 en báðir voru þeir með um 26% markvörslu.