Grófu sér djúpa holu í upphafi leiks

Einar Sverrisson sækir að marki Stjörnunnar í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss mætti Stjörnunni í gríðarlega mikilvægum leik í botnbaráttu úrvalsdeildar karla í handbolta í Set-höllinni í kvöld.

Byrjunin hjá Selfyssingum var afleit og þeir grófu sér djúpa holu þar. Stjarnan komst í 1-7 á upphafsmínútunum og um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan 6-11. Munurinn hélst svipaður fram að leikhléi en staðan í hálfleik var 12-17.

Þeir vínrauðu hresstust nokkuð í seinni hálfleiknum, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og breyttu stöðunni í 15-17. Þeir eltu Stjörnuna eins og skugginn og náðu tvívegis að minnka muninn í eitt mark. Nær komust þeir ekki því Stjarnan stöðvaði öll frekari áhlaup og vann að lokum 26-30 sigur.

Einar Sverrisson var besti maður vallarins, bæði í vörn og sókn. Hann var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk auk þess sem hann átti 9 lögleg stopp í vörninni og stal 2 boltum. Richard Sæþór SIgurðsson og Atli Ævar Ingólfsson nýttu öll sín skot í leiknum; Richard skoraði 4 mörk og Atli Ævar 3, eins og Hans Jörgen Ólafsson. Gunnar Kári Bragason og Sveinn Andri Sveinsson skoruðu báðir 2 mörk og þeir Álvaro Mallols, Sölvi Svavarsson, Sverrir Pálsson og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu allir 1 mark.

Vilius Rasimas var með 36% markvörslu í leiknum og varði 11/1 skot.

Selfoss er áfram á botni deildarinnar með 2 stig en Stjarnan er nú í 10. sæti með 5 stig.

Fyrri greinHrekkjavökuratleikur á Selfossi
Næsta greinTröllatvenna Asante dugði ekki til