Grótta lagði Selfoss á Ragnarsmótinu

Sölvi Svavarsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði fyrir Gróttu í fyrstu umferð Ragnarsmóts karla í handbolta sem hófst í Set-höllinni Iðu í kvöld.

Grótta hafði undirtökin lengst af og leiddi 17-20 í hálfleik. Selfyssingar náðu að minnka forskotið í seinni hálfleik en Grótta bætti í undir lokin og sigraði að lokum 35-38.

Sölvi Svavarsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Hákon Garri Gestsson skoraði 5, Anton Breki Hjaltason og Guðjón Óli Ósvaldsson 4, Guðmundur Steindórsson, Elvar Elí Hallgrímsson og Patrekur Þór Guðmundsson Öfjörð 3, Jónas Karl Gunnlaugsson 2 og þeir Valdimar Örn Ingvarsson og Árni Ísleifsson skoruðu 1 mark hvor. Hjá Gróttu skoraði Ágúst Ingi Óskarsson 10 mörk.

Í fyrri leik kvöldsins sigraði ÍBV Víking 35-30 þar sem Elís Þór Aðalsteinsson skoraði 9 mörk fyrir ÍBV og Benedikt Aðalsteinsson skoraði 6 mörk fyrir Víking.

Næstu leikir á mótinu fara fram á miðvikudagskvöld en þá mætast ÍBV og Þór kl. 18 og Selfoss og Haukar U kl. 20:15.

Fyrri greinNóróveira staðfest hjá sex einstaklingum
Næsta greinBesti árangur HSK/Selfoss í nokkur ár