Grótta sigraði á Ragnarsmóti karla í handbolta sem lauk í Set-höllinni Iðu í gær. Grótta vann ÍBV í úrslitaleik mótsins en Selfyssingar tóku bronsið eftir öruggan sigur á Víkingum.
Í bronsleiknum mættust Selfoss og Víkingur. Jafnt var á flestum tölum framan af en um miðjan fyrri hálfleikinn hlupu Selfyssingar fram úr og þeir hægðu lítið á sér í seinni hálfleik. Þar spilaði frammistaða markvarða Selfoss stórt hlutverk, en þeir voru með 27 varða bolta í leiknum. Leikurinn endaði með stórum sigri Selfyssinga 35-20.
Sölvi Svavarsson fór mikinn og skoraði 12 mörk fyrir Selfoss, Guðjón Baldur Ómarsson 5, Patrekur Guðmundsson Öfjörð 4, Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Álvaro Mallols og Jónas Karl Gunnlaugsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Valdimar Örn Ingvarsson, Anton Breki Hjaltason, Skarphéðinn Steinn Sveinsson, Árni Ísleifsson, Hákon Garri Gestsson og Jason Dagur Þórisson skoruðu allir 1 mark.
Í úrslitaleik mótsins sigraði Grótta ÍBV 41-33 og í leiknum um 5. sætið unnu Þórsarar Hauka-U örugglega, 38-21.
Í mótslok voru að venju veitt einstaklingsverðlaun. Selfyssingurinn Alexander Hrafnkelsson var valinn besti markvörðurinn, markahæstir á mótinu með 26 mörk voru Sölvi Svavarsson, Selfoss og Elís Þór Aðalsteinsson, ÍBV. Gróttumaðurinn Hannes Grimm var besti varnarmaðurinn og Andri Erlingsson ÍBV besti sóknarmaðurinn. Ágúst Ingi Óskarsson í Gróttu var svo útnefndur leikmaður mótsins.