Selfosss heimsótti Gróttu í fyrsta leik liðanna í einvígi um sæti í úrvalsdeildinni í handbolta á Seltjarnarnesið í dag. Grótta vann öruggan sigur, 40-31.
Grótta leiddi frá fyrstu mínútu, þeir komust í 8-2 í upphafi leiks og þegar leið á fyrri hálfleikinn juku heimamenn forskot sitt ennþá frekar, þannig að staðan var orðin 23-16 í hálfleik.
Selfyssingar voru ekki nálægt því að ógna forystu Gróttu í seinni hálfleiknum. Munurinn varð mestur tíu mörk þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum og Grótta vann að lokum sannfærandi níu marka sigur.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 9/6 mörk, Jason Dagur Þórisson skoraði 4, Hákon Garri Gestsson, Sölvi Svavarsson og Elvar Elí Hallgrímsson 3, Valdimar Örn Ingvarsson, Tryggvi Sigurberg Traustason og Anton Breki Hjaltason 2 og þeir Haukur Páll Hallgrímsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu 1 mark hvor.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 10 skot fyrir Selfoss og var með 32% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði 2 skot og var með 10% markvörslu.
Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér sæti í úrvalsdeildinni. Liðin mætast næst á Selfossi kl. 19:30 á mánudagskvöld.