Einvígi Selfoss og deildarmeistara Gróttu í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handbolta hófst í kvöld á Seltjarnarnesi.
Jafnræði var með liðunum framan af, staðan var 4-4 eftir 10 mínútur en Grótta leiddi 6-4 um miðjan fyrri hálfleikinn. Á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks náðu Gróttukonur fjögurra marka forskoti og staðan var 14-10 í hálfleik.
Grótta jók forskotið í níu mörk þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, 22-13, en Selfyssingar náðu að minnka muninn niður í sex mörk áður en yfir lauk. Lokatölur 28-22.
Selfyssingar urðu fyrir miklu áfalli í leiknum þegar Kristrún Steinþórsdóttir meiddist illa í fyrri hálfleik. Samkvæmt fyrstu upplýsingum er talið að hún hafi slitið hásin.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 9/7 mörk, Perla Albertsdóttir skoraði 7, Carmen Palamariu 5 og Harpa Brynjarsdóttir 1.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 8/2 skot í marki Selfoss og Áslaug Ýr Bragadóttir 1.