Guðjón Finnur í Selfoss

Handknattleiksdeild Selfoss hefur samið við hornamanninn Guðjón Finn Drengsson um að leika með liðinu í N1 deild karla í vetur.

Guðjón á að baki ein 11 ár í meistaraflokki með Fram og býr yfir mikilli reynslu sem kemur til með að reynast ungu liði Selfoss vel. Handboltaakademían á Selfossi hefur skilað mörgum efnilegum leikmönnum upp í meistaraflokk félagsins sem hefur eingöngu verið skipaður Selfyssingum síðustu fimm ár.

„Liðið er mjög ungt en samheldið og því er það mjög mikilvægt að vanda valið þegar leitað er eftir því að styrkja það fyrir næsta vetur í úrvalsdeildinni. Guðjón uppfyllir öll þau skilyrði sem Selfoss er að leita að í leikmanni og því erum við mjög ánægð með nýjasta liðsmann félagsins,” sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is. „Guðjón er þekktur fyrir mikla baráttu, gott keppnisskap og fyrir það að vera góður liðsmaður í velgengni og ennþá betri liðsmaður í mótlæti.”

Fyrri greinValið úr 26 umsækjendum
Næsta greinNýr kaleikur í Skálholti