Guðmunda og Björn Kristinn best

Þjálfarar og fyrirliðar liðanna í B-riðli 1. deildar kvenna völdu Guðmundu Brynju Óladóttur besta leikmanninn og Björn Kristinn Björnsson besta þjálfarann í riðlinum.

Þetta er í fyrsta sinn sem fotbolti.net stendur fyrir vali á bestu leikmönnum og þjálfurum 1. deildarinnar og er það gert í tvennu lagi, þar sem leikið er í tveimur riðlum. Fjórir Selfyssingar eru í úrvalsliði riðilsins.

Guðmunda Brynja er aðeins 17 ára gömul en hefur leikið með meistaraflokki Selfoss undanfarin þrjú ár og verið einn sterkasti leikmaður 1. deildarinnar. Hún átti frábært tímabil í sumar, skoraði 13 mörk í 12 leikjum og var lykilleikmaður í liði Selfoss sem náði sínum besta árangri frá upphafi. Það verður virkilega gaman að fylgjast með þessum leikmanni í framtíðinni en hún hefur þegar verið kölluð til æfinga með A-landsliðinu auk þess sem hún á að baki leiki með U17 og U19 ára landsliðunum.

Björn Kristinn náði þeim frábæra árangri að stýra liði Selfoss upp í efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Selfoss vann B-riðil 1.deildar með 31 stig úr 12 leikjum. Í úrslitakeppninni lagði Selfoss lið Keflavíkur en tapaði fyrir FH í úrslitaleiknum. Glæsilegur árangur hjá Birni á sínu fyrsta ári sem þjálfari Selfoss.

Í úrvalsliði riðilsins eru fjórir Selfyssingar. Þóra Margrét Ólafsdóttir og Guðrún Arnardóttir eru í vörninni, Anna Þorsteinsdóttir á miðjunni og Guðmunda í fremstu víglínu. Selfyssingar eiga flesta leikmenn í liðinu en alls voru tíu leikmenn Selfoss tilnefndar.

Fyrri greinRafmagn leitt í Veiðivötn
Næsta greinManngerðir skjálftar trufla vöktun Kötlu