Knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir og júdókappinn Egill Blöndal, bæði úr Umf. Selfoss, voru útnefnd íþróttafólk Árborgar 2013 á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar sem fram fór í kvöld.
Bæði höfðu þau nokkra yfirburði í kosningunni en Guðmunda stóð efst hjá íþróttakonunum með 237 stig, önnur varð frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, með 141 stig og þriðja handknattleikskonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Umf. Selfoss, með 113 stig.
Hjá körlunum fékk Egill 184 stig, annar varð handknattleiksmaðurinn Einar Sverrisson, Umf. Selfoss, með 130 stig og þriðji knattspyrnumaðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson, Umf. Selfoss, með 72 stig.
Tólf konur og tólf karlar voru tilnefnd í kjörinu.
Uppskeruhátíðin í kvöld var fjölmenn og fjöldi íþróttamanna á öllum aldri heiðraður. Meðal annars voru allir Íslands-, bikar- og deildarmeistarar í Árborg heiðraðir en það voru 32 lið og einstaklingar sem unnu hátt í eitthundrað titla á árinu 2013.
Motocrossdeild Umf. Selfoss fékk hvatningarverðlaun íþrótta- og menningarnefndar fyrir mikið og stöðugt uppbyggingarstarf á síðustu árum og fjöldi íþróttamanna fékk úthlutað úr afreks- og styrktarsjóðum sveitarfélagsins og íþróttafélaganna.
Einnig voru atvinnumenn í íþróttum heiðraðir en þar voru á ferðinni sex Selfyssingar; handknattleiksmennirnir Guðmundur Árni Ólafsson og Þórir Ólafsson og knattspyrnumennirnir Jón Daði Böðvarsson, Guðmundur Þórarinsson, Viðar Örn Kjartansson og Sindri Pálmason.