Guðmunda Ellen Sigurðardóttir, Hestamannafélaginu Geysi, varð fyrst Íslendinga til þess að komast á verðlaunapall á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Herning í Danmörku.
Guðmunda Ellen og Týr frá Skálatjörn urðu í þriðja sæti í fjórgangi í ungmennaflokki eftir harða keppni. Þau komu sjöttu inn í úrslitin en luku keppni í 3. sæti með einkunnina 6,67. Frábær árangur hjá Guðmundu Ellen á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.
Bronsið í dag var svo sannarlega sárabót fyrir Guðmundu Ellen því hún varð fyrir því óhappi að missa Tý út úr brautinni í keppni í slaktaumatölti fyrr í dag og voru þau því dæmd úr leik þar.
Guðmunda Ellen viðurkenndi það í viðtali við RÚV að árangurinn í fjórganginum hefði komið henni á óvart en hún var ákveðin í því að bæta upp fyrir mistökin í slaktaumatöltinu.
„Þetta gekk allt upp, nema kannski í brokkinu en annars var þetta mjög fínt,“ sagði Guðmunda og bætti því við að það hefði verið mjög gaman og góð tilfinning að komast á verðlaunapall á HM í fyrsta sinn.