Íþróttamaður Rangárþings ytra var útnefndur við hátíðlega athöfn á Hellu í vikunni, auk þess sem allir þeir sem höfðu keppt með landsliði, unnið sér inn Íslandsmeistara- eða alþjóðlegan titil fengu viðurkenningu.
Guðmundur Friðrik Björgvinsson hlaut titilinn Íþróttamaður Rangárþings ytra 2015 og fékk því farandbikar og Samverksbikarinn til eignar. Guðmundur er landsliðsmaður í hestaíþróttum og Íslands- og heimsmeistari í fjórgangi á hestinum Hrímni frá Ósi.
Auk Guðmundar fengu eftirfarandi viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur: Dagný Brynjarsdóttir landsliðskona í knattspyrnu, Gústav Ásgeir Hinriksson landsliðsmaður í hestaíþróttum og Íslandsmeistari í fjórgangi, fimmgangi og slaktaumatölti ungmenna og 250m skeiði, Rakel Nathalie Kristinsdóttir landsliðskona í fimleikum og Róbert Bergmann landsliðsmaður í hestaíþróttum og Íslandsmeistari í Tölt T1 ungmenna.
Þá fékk Guðmundur Jónasson viðurkenningu frá Rangárþingi ytra fyrir framúrskarandi starf að íþrótta- og tómstundamálum. Guðmundur hefur verið formaður Ungmennafélagsins Heklu og verið mikil driffjöður í íþrótta- og tómstundamálum í Rangárþingi ytra.