Knattspyrnufélag Árborgar tyllti sér á toppinn á D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í dag með því að leggja Mána að velli í Hornafirði.
Árborgarar voru mun ákveðnari í upphafi leiks og Guðmundur Karl Eiríksson kom þeim í góða stöðu með þremur mörkum á tuttugu mínútna kafla. Staðan var 0-3 í leikhléi.
Árborg byrjaði með boltann í seinni hálfleik og Eiríkur Raphael Elvy bætti fjórða marki Árborgar strax uppúr upphafsspyrnunni með skoti frá eigin vallarhelmingi. Máni minnkaði síðan muninn á 50. mínútu og þar við sat.
Á 70. mínútu fékk Kristján Valur Sigurjónsson sitt annað gula spjald, ásamt leikmanni Mána, og liðin spiluðu því með tíu leikmenn inni á vellinum síðustu tuttugu mínúturnar.
Árborg er í 1. sæti D-riðils með 4 stig að loknum tveimur leikjum. Næsti leikur liðsins er gegn Vatnaliljunum á heimavelli, þriðjudaginn 10. júní.