Árborg vann góðan útisigur á Sindra á Hornafirði í dag, 1-2, í A-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu.
Guðmundur Ármann Böðvarsson skoraði bæði mörk liðsins en síðara markið var tíunda mark hans í sumar. Árborg komst í 0-1 snemma leiks en skömmu síðar fékk Sindri dæmda vítaspyrnu sem Steinar Örn Stefánsson, markvörður Árborgar, varði. Heimamenn náðu hins vegar að jafna metin áður en dómarinn flautaði til hálfleiks svo staðan var 1-1 í leikhléi.
Baráttan í síðari hálfleik var hörð á rennblautum vellinum á Hornafirði en Árborgarar höfðu betur með sigurmarki sem Guðmundur Ármann skoraði af vítapunktinum á 70. mínútu.
Árborg er enn á toppi A-riðils 3. deildar með 19 stig. Liðið hefur 4 stiga forskot á Álftanes í 2. sæti.