Selfyssingarnir Guðmundur Þórarinsson og Jón Daði Böðvarsson eru báðir í landsliðshópi Íslands sem mætir Svíum í æfingaleik í Abu Dhabi 21. janúar næstkomandi.
Þetta er í fyrsta sinn sem Guðmundur, sem leikur með Sarpsborg í Noregi, er valinn í hópinn. Jón Daði, sem leikur með Viking í Noregi, lék hins vegar sinn fyrsta og eina A-landsleik gegn Andorra í nóvember 2012.
Þriðji Sunnlendingurinn í hópnum er Hrunamaðurinn Rúnar Pálmarsson, en hann er einn sjúkraþjálfara liðsins.
Ekki er um alþjóðlegan landsleikjadag að ræða og er því landsliðshópurinn samansettur af leikmönnum sem leika með félagsliðum hér á landi og á Norðurlöndunum.