Selfyssingurinn Guðmundur Þórarinsson hefur staðist læknisskoðun hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Sarpsborg 08 og skrifað undir samning til ársins 2015.
Félagið kynnti Guðmund sem leikmann sinn í dag. Í viðtali við heimasíðu Sarpsborg segist hann ánægður með vistaskiptin en hann hefur leikið með ÍBV í Vestmannaeyjum undanfarin tvö keppnistímabil.
„Þetta er góð tilfinning, ferlið tók um það bil einn mánuð og það er langur tími að bíða en ég var rólegur yfir þessu og er glaður að þetta sé í höfn. Þetta er stórt tækifæri fyrir mig og vonandi nýti ég það vel,“ segir Guðmundur í viðtalinu.
„Ég lofa að gera mitt besta fyrir félagið og tel að þetta sé gott skref fyrir minn feril. Mitt fyrsta markmið er að komast í byrjunarliðið og standa mig vel. Ég stefni auðvitað á að komast í íslenska landsliðið og vonandi rætist sá draumur ef ég spila vel fyrir Sarpsborg.“
Guðmundur er einungis annar leikmaðurinn úr röðum Selfoss sem verður atvinnumaður í knattspyrnu en sá fyrsti var móðurbróðir hans, Páll Guðmundsson, sem lék hann lék með Raufoss í Noregi og Ionikos í Grikklandi.
Ítarlegt viðtal verður við Guðmund í næsta tölublaði Sunnlenska.