Guðmundur Tryggvi Ólafsson náði bestum árangri Sunnlendinga í Laugavegsmaraþoninu sem fram fór á laugardaginn. Hlaupið er 53 km á milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Guðmundur Tryggvi hljóp á 5:46,34 klst og varð í 26. sæti í heildina og í 18. sæti í karlaflokki 40-49 ára. Bárður Árnason varð í 69. sæti í sama flokki á 7:34,12 klst en báðir hlupu þeir fyrir Hreindýrafélagið sem varð í 7. sæti í sveitakeppninni.
Rangæingurinn Ingi Hlynur Jónsson varð fjórði í flokki 18-29 ára karla og 40. í heildina á tímanum 5:57,53 klst og Hrunamaðurinn Daníel Reynisson varð áttundi í sama flokki á 6:43,19 klst.
Selfyssingurinn Ögmundur Hrafn Magnússon varð fjórði í karlaflokki 30-39 ára og 31. í heildina á tímanum 5:50,51 klst. Tveir Gnúpverjar hlupu í þessum flokki; Björn Hrannar Björnsson varð í 33. sæti á 7:07,07 klst og Marinó Fannar Garðarsson í 40. sæti á 7:41,13 klst.
Sigmundur Stefánsson varð í 3. sæti í flokki 50-59 ára karla og 38. í heildina. Sigmundur hljóp á 5:56,50 klst. Helgi Kristinn Marvinsson varð í 11. sæti í sama flokki á 6:50,08 klst og badmintonkappinn Reynir Guðmundsson í 19. sæti á 7:22,03 klst.
Sarah Seeliger á Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi varð fyrst sunnlenskra kvenna í mark. Hún hljóp á 7:23,27 klst og varð í 12. sæti í flokki 30-39 ára kvenna. Rétt á eftir henni kom Steingerður Hreinsdóttir í mark, á 7:23,35 klst og varð hún í 17. sæti í flokki kvenna 40-49 ára. Anna Björg Stefánsdóttir varð í 24. sæti í sama flokki á 7:43,02 klst.