Guðni Páll Pálsson frá Vík í Mýrdal kom annar í mark í Laugavegshlaupinu, sem hlaupið var síðastliðinn laugardag milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Guðni Páll hljóp leiðina, sem er 55 kílómetra löng, á 4:52,25 klukkustundum og var rúmum fjórum mínútum á eftir sigurvegaranum, Örvari Steingrímssyni frá Kópavogi. Saman skipuðu þeir sigursveitina í sveitakeppninni, Team Efla, ásamt Sölva Oddsyni sem varð tíundi í heildina á 5:31,12 klst. Guðni Páll var fyrstur karla í aldursflokknum 18-29 ára.
Margir Sunnlendingar tóku þátt í hlaupinu með góðum árangri. Ösp Jóhannsdóttir á Flúðum varð fjórða í flokki kvenna 8-29 ára á 6:57,51 klst og Guðbjörg A. Finnbogadóttir frá Minni-Mástungu varð áttunda í sama flokki á 9:52,16 klst.
Fríska Flóakonan Sarah Seeliger varð í 8. sæti í flokki kvenna 30-39 ára á 6:56,58 klst og María Maronsdóttir á Selfossi kom tíunda í mark í flokknum á 7:25,24 klst. Auðbjörg Ólafsdóttir frá Geirakoti varð í 20. sæti í þessum flokki á 8:07,36 klst.
Í flokki kvenna 40-49 ára varð Björk Steindórsdóttir, ljósmóðir á Selfossi, í 6. sæti á 6:57,20 klst og skömmu síðar kom næsta ljósmóðir í mark, Sigrún Kristjánsdóttir í Hveragerði á 7:08,36 klst. Steingerður Hreinsdóttir var tíunda í flokknum á 7:19,41 klst.
Hrunamaðurinn Daníel Reynisson varð tíundi í flokki 18-29 ára á 6:37,38 klst og á eftir honum í 11. sæti kom Jón M. Andreasen Finnbogason frá Minni-Mástungu á 7:08,56 klst.
Sundkappinn Stefán Reyr Ólafsson frá Selfossi varð 18. í flokki karla 30-39 ára á 6:28,12 klst og Marinó Fannar Garðarsson frá Minni-Mástungu varð í 42. sæti í sama flokki á 7:08,57 klst.
Í flokki karla 40-49 ára varð Hvergerðingurinn Jón Gísli Guðlaugsson í 21. sæti á 6:22,05 klst og Sverrir G. Ingibjartsson á Selfossi varð í 37. sæti í sama flokki á 6:48,57 klst., skammt á undan Kjörísforstjóranum Valdimar Hafsteinssyni sem var í 44. sæti í flokknum á 7:01,14 klst. Rétt á eftir Valdimar í mark kom Selfyssingurinn Bárður Árnason, á 7:08,59 klst.
Haukur Michelsen í Hveragerði varð tíundi í flokki karla 50-59 ára á 6:37,36 klst. og tólfti í þeim flokki varð Kristinn Marvinsson á Selfossi á 6:52,30 klst. Reynir Guðmundsson, badmintonmeistari á Flúðum, varð 16. í sama flokki á 7:17,54 klst og Pétur Ingi Frantzson, hlaupaforkólfur í Úlfljótsskála varð tuttugasti á 7:27,20 klst.