Guðný Guðmarsdóttir, frá Stóra-Hofi í Gnúpverjahreppi, var í desember síðastliðnum kjörin í nefnd um konur í akstursíþróttum, á ársþingi Alþjóða akstursíþróttasambandsins, sem haldið var í París.
Í mörg ár hefur verið rætt um að Akstursíþróttsamband Ísland taki aukinn þátt í nefndarstörfum Alþjóða akstursíþróttasambandsins með einhverjum hætti en síðasta sumar hófst vinna við það að kanna í hvaða nefndum Ísland gæti átt fulltrúa. Í samráði við stjórnendur átaksins Konur í akstursíþróttum var lagt til að Guðný yrði tilnefnd til setu í FIA Women in Motorsport Commission.
Á ársþinginu í París var Guðný svo kjörin í nefndina og einnig var ákveðið að Ísland muni halda næsta FIA Women in Motorsport þing sem haldið verður árið 2020.
Guðný hefur verið virk í akstursíþróttum á Íslandi frá árinu 2009 og meðal annars setið í stjórn Bílaklúbbs Skagafjarðar. Frá árinu 2011 hefur Guðný ljósmyndað akstursíþróttir og skrifað greinar, en fjölmargar myndir og greinar eftir hana, bæði um rally og torfæru, hafa birst í helstu fjölmiðlum landsins. Á síðasta ári var á vegum AKÍS stofnað til átaksins Konur í akstursíþróttum og hefur Guðný verið leiðandi í því starfi hérlendis.