Guðríður Aadnegard var endurkjörin formaður Héraðssambandsins Skarphéðins á héraðsþingi sambandsins, sem haldið var á Borg í Grímsnesi sl. laugardag.
Um 115 þingfulltrúar og gestir mættu til þings, sem er góð mæting miðað við veðurfar þennan dag. Vegna veðurútslits voru margir sem sátu ekki allt þingið, en þeir sem voru til loka þings fóru heim í mun betra veðri.
Góðar umræður voru í nefndum þingsins og um 30 tillögur voru samþykktar. Nánar verður fjallað um tillögurnar í næstu HSK fréttum.
Reikningar sambandsins voru lagðir fram og samþykktir samhljóða. Um 430 þúsund króna hagnaður varð af rekstri sambandsins á liðnu ári. Sambandið skuldar ekkert og er eigið fé um 15,9 milljónir.
Breytingar urðu á stjórn sambandsins, en Hansína Kristjánsdóttir, sem kosin var gjaldkeri á síðasta héraðsþingi, var ekki í kjöri og þá gaf Lára B. Jónsdóttir ekki kost á sér til endurkjörs. Stjórn HSK, sem kosin var á þinginu, skipa þau Guðríður Aadnegard, formaður, Guðmundur Jónasson, gjaldkeri, Bergur Guðmundsson, ritari, Örn Guðnason, varaformaður og Fanney Ólafsdóttir meðstjórnandi. Í varastjórn eru Anný Ingimarsdóttir, Gestur Einarsson og Jóhannes Óli Kjartansson. Guðmundur gjaldkeri sat áður í varastjórn og Gestur og Jóhannes koma nýir inn í varastjórn, aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir.
Samkvæmt venju fór sleifarkeppni HSK fram á þinginu og þar sigraði Ólafur Elí Magnússon á Hvolsvelli. Þá var Lárus Ingi Friðfinsson í Hveragerði útnefndur matmaður þingsins.
Vegleg 88 blaðsíðna ársskýrsla kom út á héraðsþinginu en nálgast má hana hér.