Guðrún Inga kosin varaformaður

Fulltrúar frá fimm af sjö aðildarfélögum Glímuráðs HSK mættu á aðalfund ráðsins, sem haldinn var í Selinu á Selfossi á dögunum.

Rætt var um starfið á liðnu ári, sem hefur verið öflugt, þar sem hæst bar mótahald sambandsins og góður árangur á mótum á landsvísu. Fjárhagur ráðsins er traustur og varð 231.639 kr. hagnaður af rekstrinum á síðasta ári.

Á fundinum var Stefán Geirsson úr Samhygð endurkjörinn formaður ráðsins og Guðni Sighvatsson Garpi var endurkjörinn gjaldkeri. Tungnamaðurinn Smári Þorsteinsson gaf ekki kost á sér sem ritari og varaformaður, en hann tók sæti í varastjórn. Guðrún Inga Helgadóttir úr Vöku var kjörin ritari og varaformaður og er hún fyrsta konan sem gegnir því embætti innan ráðsins. Ólafur Oddur Sigurðsson úr Laugdælum gaf ekki kost á sér í varastjórn og var Jana Lind Ellertsdóttir úr Garpi kjörin í hans stað.

Fjölmörg mál voru rædd undir liðnum önnur mál. Mótaskrá vetrarins var ákveðin og þá var ákveðið að halda aðalfund næsta árs 11. mars nk. Rætt var um glímukynningar á sambandssvæðinu og stefnir ráðið að koma að þeim í samstarfi við GLÍ. Ákveðið var að kaupa ný belti og búninga. Þá var rætt um keppnisferðir til Skotlands, en næsta landsliðsferð fyrir 15 – 18 ára unglinga verður farin um næstu verslunarmannahelgi.

Fyrri greinGaf tuttugu miða í Sjóðinn góða
Næsta greinFSu tyllti sér í toppsætið