Guðmunda reyndist gömlu félögunum erfið

Unnur Dóra Bergsdóttir skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti HK í Kórinn í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. HK sigraði 3-1 og gamli Selfyssingurinn Guðmunda Brynja Óladóttir reyndist hetja þeirra.

Selfoss byrjaði skelfilega í leiknum. Strax á 4. mínútu hófu þær sókn, töpuðu boltanum inni í eigin vítateig og Guðmunda Brynja skoraði auðveldlega með skoti af stuttu færi. Ekki batnaði staðan hjá Selfyssingum á 10. mínútu þegar Ásdís Þóra Böðvarsdóttir fékk að líta rauða spjaldið. Hún braut á leikmanni HK sem var sloppin innfyrir og manni færri reyndist Selfyssingum róðurinn þungur.

Á 16. mínútu skoraði Guðmunda Brynja annað mark HK, eftir fyrirgjöf frá vinstri skallaði hún boltann í netið af markteigslínunni og kom HK í 2-0 en eftir það róaðist leikurinn nokkuð.

Staðan var 2-0 í hálfleik en þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik gerði Jana Sól Valdimarsdóttir endanlega út um leikinn þegar hún skoraði með glæsilegu skoti utan vítateigs og Eva Ýr Helgadóttir kom engum vörnum við í marki Selfoss.

Það voru þó þær vínrauðu sem áttu lokaorðið. Á 67. mínútu átti Unnur Dóra Bergsdóttir þrumuskot vel fyrir utan vítateig HK sem markvörður heimakvennanna misreiknaði og boltinn lá í netinu.

Staðan eftir fimm umferðir er þannig að Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 5 stig en HK er í 3. sæti með 8 stig.

Fyrri greinÉg er nú ekki rosalega mikill lestrarhestur
Næsta greinHamar og Árborg gerðu bæði jafntefli