Guðmundur Kr. Jónsson og Gissur Jónsson, báðir úr Ungmennafélagi Selfoss, voru heiðraðir á Sambandsþingi Ungmennafélags Íslands sem hófst í gær á Hótel Geysi í Haukadal.
Guðmundur Kr. var gerður að heiðursfélaga UMFÍ en heiðursfélagakross sem hann fékk af þessu tilefni er æðsta heiðursmerki samtakanna.
Guðmundur hóf ungur að iðka frjálsar íþróttir og varð afburða spretthlaupari og stökkvari. Hann varð snemma mjög öflugur félagsmálamaður og tók virkan þátt í öllu starfi Ungmennafélags Selfoss. Hann var formaður félagsins á árunum 2014 til 2017 og hafði áður verið formaður frjálsíþróttadeildarinnar í næstum áratug og síðar sinn störfum vallarstjóra Selfossvallar og framkvæmdastjóra ungmennafélagsins.
Árið 1981 var Guðmundur kosinn formaður HSK og hélt um stjórnartaumana í átta ár með miklum myndarskap og sat í aðalstjórn ÍSÍ í tvö ár. Guðmundur tekur enn virkan þátt í störfum sambandsins og enn er leitað til hans sem þular á frjálsíþróttamótum HSK enda röggsamur og vel til forystu fallinn.
Guðmundur hefur fengið viðurkenningar fyrir margháttuð störf sín fyrir hreyfinguna í áratugi og er einn þriggja heiðursformanna HSK. Hann hefur hlotið allar æðstu viðurkenningar ÍSÍ, gullmerki og heiðurskross og er heiðursfélagi ÍSÍ. Guðmundur fékk starfsmerki UMFÍ árið 1979 og var sæmdur gullmerki UMFÍ 2010.
Öflugur liðsfélagi ungmennafélaganna
Gissur Jónsson, frá Brunnhóli á Mýrum í Hornafirði, kemur frá sambandssvæði Ungmennasambandsins Úlfljóts. Leið hann hefur alla tíð legið meðfram suðurströndinni og hefur hann verið öflugur liðsfélagi hjá ungmennafélögum í suðurkjördæmi.
Gissur var kröftugur félagsmaður í knattspyrnudeild Selfoss og hélt þar meðal annars um getraunastarf deildarinnar. Hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Ungmennafélags Selfoss og fyrir fjórum árum tók sæti í varastjórn UMFÍ og hefur tekið virkan þátt í starfi hreyfingarinnar, setið í framkvæmdanefnd Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi 2022 og og reynst afar dýrmætur bakhjarl í öllu starfi íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar.