KFR og Árborg unnu sína leiki í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Stokkseyri tapaði sínum leik.
KFR heimsótti Kóngana á Þróttarvöllinn í Reykjavík og þar var um einstefnu að ræða. Reynir Óskarsson kom KFR yfir á 12. mínútu og Ævar Már Viktorsson bætti við öðru marki á 27. mínútu. Staðan var 0-2 í hálfleik en hlutirnir voru fljótir að breytast í seinni hálfleik. Ævar skoraði sitt annað mark á 54. mínútu og fimm mínútum síðar hafði Helgi Ármannsson komið KFR í 0-4. Guðmundur Gunnar Guðmundsson kom inná sem varamaður á sama tíma og hann átti heldur betur eftir að láta að sér kveða því hann skoraði fjögur síðustu mörk KFR og tryggði þeim 0-8 sigur.
Árborg fékk Mídas í heimsókn á Selfossvöll og þar skoruðu Brynjar Þór Elvarsson og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson fyrir þá bláu í fyrri hálfleik. Staðan var 2-0 í leikhléi en seinni hálfleikur var markalaus þrátt fyrir ágætar sóknir Árborgara.
Á Stokkseyri mættu heimamenn Létti og þar komust gestirnir yfir strax á 1. mínútu leiksins. Léttismenn bættu við öðru marki á 22. mínútu og staðan var 0-2 í leikhléi. Þriðja mark Léttis leit dagsins ljós á 64. mínútu en Þórhallur Aron Másson rétti af hlut Stokkseyringa á 83. mínútu og lokatölur urðu 1-3.
Í A-riðli 4. deildar er Árborg í 3. sæti með 3 stig, Stokkseyri er án stiga í 6. sæti C-riðilsins en í D-riðlinum er KFR í 2. sæti með 4 stig.