Guðmundur seldur til Fylkis

Guðmundur Tyrfingsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnudeild Selfoss hefur komist að samkomulagi við Bestudeildarlið Fylkis um sölu á Guðmundi Tyrfingssyni, fyrirliða Selfoss.

Selfyssingar tilkynntu þetta á miðlum sínum rétt í þessu og þar þakkar Guðmundur liðsfélögum sínum og fólkinu í kringum félagið fyrir tíma sinn á Selfossi.

„Ég er viss um að Selfossi muni ganga vel á næstu árum enda frábærir leikmenn í liðinu ásamt mörgum efnilegum leikmönnum að koma upp. Ég hlakka til að fylgjast með Selfoss sem stuðningsmaður,“ segir Guðmundur.

Guðmundur, sem er tvítugur, er Selfyssingur í húð og hár en hann æfði og spilaði upp alla yngri flokka Selfoss áður en hann gekk til liðs við ÍA árið 2020. Hann kom aftur heim um mitt sumar 2022 og hefur verið lykilmaður í liði Selfoss síðan. Guðmundur hefur spilað 77 leiki fyrir Selfoss, þar af 21 leik í 1. deildinni í sumar, þar sem hann var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk.

Fyrri greinKvikmyndatónleikar í Hlíðardalsskóla
Næsta greinBerserkirBJJ unnu tvo Íslandsmeistaratitla