Lengjubikarinn í knattspyrnu hófst í dag þegar Selfoss heimsótti Íslandsmeistara Breiðabliks í A-deildinni.
Blikar voru fyrri til að skora í Fífunni en Patrik Johannesen kom þeim yfir á 40. mínútu. Selfyssingar áttu sína spretti og á 64. mínútu uppskáru þeir vítaspyrnu. Guðmundur Tyrfingsson fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Heimamenn voru sterkari á lokakaflanum og skoruðu tvívegis. Stefán Ingi Sigurðsson var þar á ferðinni í bæði skiptin en hann kom Blikum í 2-1 á 77. mínútu og tryggði þeim 3-1 sigur á 88. mínútu.
Næsti leikur Selfoss í Lengjubikarnum er næstkomandi föstudag þegar liðið sækir FH heim. Aðrir andstæðingar Selfoss í riðlinum eru ÍBV, Kórdrengir og Leiknir.