Guðmundur skoraði eftir sjö ára hlé

Guðmundur Garðar Sigfússon skoraði fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann góðan sigur á Vatnaliljum í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld, 2-4 í Fagralundi í Kópavogi

Það voru Vatnaliljurnar sem voru fyrri til að skora en þær komust yfir strax á 3. mínútu leiksins. Guðmundur Garðar Sigfússon og Hartmann Antonsson breyttu stöðunni í 1-2 á fjórum mínútum skömmu síðar og Magnús Helgi Sigurðsson bætti við þriðja marki Árborgar á 26. mínútu. Sex mínútum síðar minnkuðu Liljurnar muninn í 2-3 og þannig var staðan í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var markalaus allt þar til fimm mínútur voru eftir en þá skoraði Guðmundur Garðar sitt annað mark og tryggði Árborg 2-4 sigur. Þetta voru fyrstu mörk Guðmundar fyrir Árborg á Íslandsmóti síðan í ágúst 2012, en hann lék með KFR og Ægi í millitíðinni.

Árborg er í 3. sæti riðilsins með 9 stig en Vatnaliljur eru í 7. sæti og hafa ekki náð í stig í sumar.

Fyrri greinÖryggi sjúkraflutningamanna og skjólstæðinga þeirra ógnað
Næsta greinAlelda bifreið í Mýrdalnum