Guðrún Þóra Geirsdóttir skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss en hún kemur til félagsins frá Völsungi. Félögin komust að samkomulagi um að Guðrún verði lánuð aftur í Völsung og mun hún því leika á Húsavík í sumar.
Guðrún Þóra er 17 ára gömul, fjölhæfur leikmaður sem getur leyst ýmsar stöður á vellinum og var í lykilhlutverki hjá Völsungi á síðasta tímabili. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún spilað 34 meistaraflokksleiki fyrir Völsung og skorað í þeim 7 mörk. Hún hefur verið valin á úrtaksæfingar fyrir yngri landslið Íslands og næsta vetur mun hún hefja nám í Knattspyrnuakademíu Íslands við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
„Hún var í viku hjá okkur í vetur og stóð sig með stakri prýði. Við erum mjög lukkuleg að fá svona ungan og efnilegan leikmann með mikinn metnað til liðs við okkur,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.