Gull í hús og gömul met fuku í Gautaborg

Bryndís Embla og Ásta Kristín með gullverðlaun um hálsinn í Gautaborg. Ljósmynd/selfoss.net

Sunnlendingar náðu frábærum árangri á Gautaborgarleikunum í frjálsum íþróttum sem haldnir voru í Svíþjóð dagana 5.-7. júlí við íslenskar aðstæður, rigningu og rok.

Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, vann bæði gull- og silfurverðlaun á mótinu auk þess sem hún þríbætti Íslandsmetið í kringlukasti í flokki 15 ára stúlkna. Bryndís Embla vann gullverðlaun í kúluvarpi og silfurverðlaun í spjótkasti. Hún varð svo í 4. sæti í kringlukasti með kast upp á 38,12 m. Íslandsmetið í aldursflokknum átti Arndís Diljá Óskarsdóttir, FH, 30,75 m og HSK-metið var í eigu Ragnheiðar Guðjónsdóttur, Hrunamönnum, 29,01 m. Bryndís Embla byrjaði á að bæta þessi met með því að kasta 30,82 m, lengdi sig síðan í 36,44 m og að lokum kastaði hún 38,12 m.

Ásta Kristín Ólafsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði glæsilega í spjótkasti í flokki 13 ára á persónulegu meti og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, bætti sinn besta árangur í spjótkasti í 16-17 ára flokki og vann til bronsverðlauna. Hjálmar var framarlega í öllum sínum greinum; 4. sæti í þrístökki, 4.-5. sæti í 100 m hlaupi og í 5. sæti í kúluvarpi.

Helga Fjóla bætti 49 ára gamalt met
Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Garpi, varð í 4. sæti í langstökki 15 ára stúlkna með stökk upp á 5,49 sm. Meðvindur var of mikill í stökkinu til þess að það kæmist í metabækur Skarphéðins en næst lengsta stökk hennar var 5,42 sm í löglegum vindi og þar með sló hún 49 ára gamalt héraðsmet Ingibjargar Ívarsdóttur, Umf. Samhygð, í þessum aldursflokki. Gamla metið setti Ingibjörg í Fuglsø í Danmörku árið 1975. Helga Fjóla náði einnig góðum árangri í þrístökki í Gautaborg og varð í 7. sæti.

Helga Fjóla Erlendsdóttir á keppnisvellinum í Gautaborg. Ljósmynd/Aðsend

Aðrir Sunnlendingar í topp tíu í Gautaborg:

13 ára:
Magnús Tryggvi Birgisson, Umf. Selfoss, 7. sæti í þrístökki.
Birkir Aron Ársælsson, Umf. Selfoss, 8. sæti í spjótkasti.

15 ára:
Arndís Eva Vigfúsdóttir, Umf. Selfoss, 6. sæti í hástökki og 9. sæti í kúluvarpi.

16-17 ára:
Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, 4. sæti í 800 m hlaupi.
Vésteinn Loftsson, Umf. Selfoss, 7. sæti í kringlukasti.
Ívar Ylur Birkisson, Íþf. Dímon, 4. sæti í 110 m grind, 8. sæti í hástökki og 9. sæti í 400 m grind.
Ísold Assa Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, 4. sæti í hástökki og 8. sæti í þrístökki.
Katrín Eyland Gunnarsdóttir, Íþf. Dímon, 8. sæti í hástökki.
Dagmar Sif Morthens, Umf. Selfoss, 9. sæti í hástökki.
Hugrún Birna Hjaltadóttir, Umf. Selfoss, 10. sæti í þrístökki.

18-19 ára:
Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, 6. sæti í spjótkasti.
Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Umf. Selfoss, 8. sæti í hástökki.

Hjálmar Vilhelm (t.h.) á verðlaunapalli með bronsverðlaun í spjótkasti ásamt Finnanum Robin Liljeqvist sem sigraði og Alexander Vedin frá Svíþjóð sem varð annar. Ljósmynd/selfoss.net
Fyrri greinFranskt söngtríó á lokatónleikum Engla og manna
Næsta greinMiklar skemmdir unnar á Lystigarðinum