Rangæingurinn Gunnar Bragason var sæmdur heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á 76. Íþróttaþingi ÍSÍ, sem haldið var í Ólafssal að Ásvöllum í Hafnarfirði um helgina. Heiðurskrossinn er æðsta heiðursviðurkenning sambandsins.
Gunnar hefur setið í framkvæmdastjórn ÍSÍ frá árinu 2002 en ákvað nú að láta gott heita og gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Hann hefur verið gjaldkeri stjórnar ÍSÍ frá árinu 2004. Áður en hann tók sæti í stjórn ÍSÍ var hann m.a. forseti Golfsambands Íslands en hann er félagi í Golfklúbbnum Hellu.
Gunnar, sem er nú búsettur í Kópavogi, var sæmdur heiðurskrossi fyrir ómetanleg störf sín og stjórnarsetu til margra ára fyrir íþróttahreyfinguna sem og ÍSÍ.