Gyða Dögg og Elmar Darri mótokrossfólk ársins

Lokahóf Mótokrossdeildar Selfoss var haldið laugardagskvöldið 20. september í aðstöðuhúsi deildarinnar við mótokrossbrautina, eftir vel heppnaðan endurotúr liðsfélaga deildarinnar fyrr um daginn inn á hálendið.

Í túrinn mættu þrettán galvaskir meðlimir deildarinnar sem áttu góðan dag á fjöllum og áætlað er að fara með krakka deildarinnar í svipaða ferð síðar. Góð mæting var á lokahófið og var grillað ofan í mannskapinn, allt í allt um þrjátíu manns.

Veitt voru verðlaun fyrir árangur og ástundun sumarsins og hér að neðan eru taldir upp verðlaunahafar ásamt umsögn stjórnar deildarinnar um þá:

Púkaverðlaun 2014: Alexander Adam Kuc. Alexander er sennilega búinn að vera með besta ástundun allra krakka sem æfa hjá mótokrossdeildinni og er búinn að standa sig mjög vel í allt sumar á æfingum.

Efnilegust 2014: Ásta Petrea Hannesdóttir. Ásta mætti á æfingu fyrst í byrjun sumars full efasemda um að æfa í krakkabraut mótokrossdeildarinnar en lét tilleiðast og sér ekki eftir því. Ásta hefur tekið stórstígum framförum í sumar og er mjög góð í að tileinka sér nýja tækni sem verið er að kenna henni. Ásta keppti í tveimur keppnum í sumar og krækti sér í verðlaunasæti í þeim báðum.

Efnilegastur 2014: Arnar Daði Brynjarsson. Arnar hefur æft hjá mótokrossdeildinni í tvö ár og má segja að staða hans á hjólinu sé einstaklega góð og tækni til fyrirmyndar af ekki eldri dreng. Við bíðum spennt eftir að sjá Arnar í keppni á næsta ári þegar hann hefur aldur til.

Besti nýliðinn 2014: Ármann Baldur Bragason. Ármann hóf æfingar hjá mótokrossdeildinni í vor og hefur tekið gríðarlegum framförum yfir sumarið enda hefur ástundunin verið afskaplega góð og segja má að hann noti hvert tækifæri til að hjóla.

Hvatningarverðlaun 2014: Sindri Steinn Axelsson. Sindri er á sínu þriðja ári að æfa hjá mótokrossdeildinni og hefur alltaf staðið sig vel, hjólað eins mikið og hann hefur getað og haldið stöðugri framför í gegnum ferilinn, Sindri endaði fjórði til Íslandsmeistara 2014 í 85 cc flokki og mun á næsta ári færast upp í unglingaflokk þar sem hann mun keppa á stærra hjóli.

Gamlinginn 2014: Heiðar Örn Sverrisson. Heiðar varð í sumar Íslandsmeistari í MX-40+ flokki og átti þar í harðri baráttu allt til enda. Heiðar hefur hraða á hjólinu á við bestu menn landsins og þykir það merkilegt fyrir þær sakir að hann hefur ekki hjólað í það mörg ár.

Mótokrosskona ársins 2014: Gyða Dögg Heiðarsdóttir. Gyða varð önnur til Íslandsmeistara í kvennaflokki í ár og á sannarlega framtíðina fyrir sér og hlökkum við til að sjá hana taka þetta á næsta ári.

Mótokrossmaður ársins 2014: Elmar Darri Vilhelmsson. Elmar varð Íslandsmeistari í 85 cc flokki þetta árið eftir harða baráttu. Elmar sigraði þrjú af fimm mótum sumarsins og sýndi það og sannaði að hann átti titilinn svo sannarlega skilið.


Gyða Dögg ásamt Axel formanni. Ljósmynd/umfs.is


Elmar Darri ásamt Axel formanni. Ljósmynd/umfs.is

Fleiri myndir frá lokahófinu eru á heimasíðu Umf. Selfoss.

Fyrri greinSelfoss með tvö lið í efstu deild
Næsta greinÁningaraðstaða við Langasjó