Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands útnefndi Gyðu Dögg Heiðarsdóttur frá Þorlákshöfn mótorhjóla- og snjósleðakonu ársins 2018.
Gyða Dögg er 19 ára gömul og þetta er í þriðja skiptið sem hún hampar þessum titli, en hún var einnig útnefnd árið 2015 og 2016.
Hún náði mjög góðum árangri á liðnu keppnistímabili, en hún varð Íslandsmeistari í kvennaflokki í motocross og enduro þolakstri. Gyða Dögg byrjaði að keppa í motocross 12 ára gömul og hefur æft í sjö ár.
Í viðtali við Gyðu Dögg á heimasíðu MSÍ segir hún að motocross sé ótrúlega erfið og krefjandi íþrótt en á sama tíma svo ólýsanlega skemmtileg. „Ég keppti í fyrsta skiptið í enduro í sumar og var það til að byrja með aðallega til að gera mig að betri ökumanni en það kom mér mjög mikið á óvart og nýt ég mín mikið þar líka,“ segir Gyða Dögg.