Gnúpverjinn Valgerður Einarsdóttir Hjaltested náði að bæta sitt besta skor í bogfimi á lokamóti um þátttökurétt á Ólympíuleikunum í sumar og var ekki langt frá frá Ólympíulágmarkinu í undankeppni mótsins. Mótið var haldið í hitabylgju í Tyrklandi í síðustu viku.
Valgerður skoraði 589 í undankeppninni en Ólympíulágmarkið er 610 stig. Samkeppni um þátttökurétt á Ólympíuleika er orðin gífurlega hörð. Til dæmis vann engin Norðurlandaþjóð sér þátttökurétt og er það í fyrsta skipti í sögunni sem það gerist. Ísland getur sótt um takmarkaðan fjölda af boðssætum en ákveðið var að sækja ekki um fyrir bogfimi að þessu sinni. Hægt er að lesa nánar um mótið á bogfimi.is.
Eftir undankeppnina á mótinu í Tyrklandi gekk ekki eins vel hjá Valgerði í útsláttarkeppninni. Hún mætti Ida-Lotta Lassila frá Finnlandi í fyrstu umferð og tapaði 6-0.
Sem fyrr segir var hitabylgja að ganga yfir Tyrkland á meðan á mótinu stóð og því margar regnhlífar á lofti sem sólhlífar. Valgerður hélt sér einnig kaldri með því að hella reglubundið ísmolavatni yfir bolinn sinn og leyfa því að gufa upp til að gleypa hitann.