Selfyssingarnir Hafþór Gylfi Gíslason og Hrannar Eysteinsson hafa lokið keppni á Íslandsmótinu í póker í 11. og 14. sæti.
Hrannar var með tíupar á hendi þegar hann datt út en mótherji hans með ás og kóng. Floppið var þristur, gosi og fimma og turnspilið var fjarki. Það var síðan kóngur sem birtist í river og felldi Hrannar út. Hann fékk 187.500 krónur í verðlaunafé.
Hafþór fór all-in með 400.000 í 100.000 pott með ás og níu á hendi. Mótherji hans hugsaði sig lengi um en ákvað svo að kalla með kóng og fimmu á hendi. Á borðinu voru kóngur, fjarki og gosi. Hafþór fékk ekkert út úr turn eða river og féll því úr leik í 11. sæti. Verðlaunafé Hafþórs er 246.000 krónur.
Níu leikmenn sitja lokaborðið á Hótel Örk og er spilamennska þar að hefjast. Leikið verður til þrautar þar til sigurvegari mótsins er kominn með 3,2 milljónir króna í vasann. Daníel Rodriguez er með hæsta staflann þegar lokaborðið hefst, 1.519 þúsund.