Hvergerðingurinn Hafrún Hálfdánardóttir hefur gengið í raðir KR í Iceland Express-deild kvenna í körfuknattleik.
Hafrún er uppalin Hamarskona en í viðtali við Karfan.is segir hún að tímabært hafi verið að breyta til.
„Ég fluttist til Reykjavíkur í vor og fannst tími kominn á breytingar. Ég valdi KR af því ég veit að þar er hörku prógramm og mér líst vel á Hrafn og stelpurnar. Ég horfði líka á þá staðreynd að KR vantaði leikmenn í mína stöðu,“ segir Hafrún.
„Það var ekki auðveld ákvörðun að fara frá Hamri enda uppeldisfélagið mitt og margar góðar vinkonur mínar í liðinu. Mér mun alltaf þykja vænt um liðið en ég trúi að þetta sé rétt ákvörðun fyrir mig núna,“ segir Hafrún sem gerði 3,3 stig og tók 4 fráköst að meðaltali í leik með Hamri á síðasta tímabili.
Hafrún er annar leikmaðurinn sem fer frá Hamri í sumar því Sigrún Ámundadóttir mun leika í Frakklandi í vetur.