Hvergerðingurinn Hafsteinn Valdimarsson, Waldviertel Raffaissen, er blakmaður ársins 2016 að mati Blaksambands Íslands. Þetta er þriðja árið í röð sem Hafsteinn fær þessa viðurkenningu.
Hafsteinn gekk í sumar til liðs við Waldviertel Raffaissen í Austurríki sem er á meðal fremstu blakliða landsins. Hafsteinn varð danskur bikarmeistari á síðustu leiktíð með Marienlyst auk þess sem liðið hafnaði í öðru sæti í dönsku úrvalsdeildinni. Einnig varð Marienlyst í öðru sæti á NEVZA-móti félagsliða. Hafsteinn átti flestar hávarnirnar í dönsku úrvalsdeildinni í blaki á síðasta keppnistímabili og var valinn í lið ársins í Danmörku.
Hafsteinn var einn af burðarásum íslenska landsliðsins í blaki en liðið tryggði sér þátttöku í annarri umferð undankeppni heimsmeistaramótsins í fyrsta sinn. Hann lék sinn 50. landsleik á árinu og varð Íslandsmeistari í strandblaki ásamt bróður sínum Kristjáni Valdimarssyni.
Blakkona ársins er Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, sem leikur með Örebro í Svíþjóð.