Blakmaðurinn Hafsteinn Valdimarsson var útnefndur íþróttamaður ársins 2023 hjá Íþróttafélaginu Hamri í Hveragerði á aðalfundi félagsins í gærkvöldi.
Hafsteinn er lykilmaður og fyrirliði í karlaliði Hamars sem varð deildar- og bikarmeistari á síðasta ári.
Þrír aðrir íþróttamenn voru tilnefndir í kjöri íþróttamanns Hamars, knattspyrnumaðurinn Brynjar Óðinn Atlason, badmintonmaðurinn Úlfur Þórhallsson og körfuknattleiksmaðurinn Ragnar Ágúst Nathanaelsson.
Aðalfundurinn samþykkti stofnun tveggja nýrra deilda innan félagsins; almennrar deildar og lyftingadeildar. Á fundinum var einnig kynntur nýr samstarfssamningur milli Hamars og Hveragerðisbæjar og var hann undirritaður á fundinum.