Hafsteinn Valdimarsson, landsliðsmaður í blaki, var valinn íþróttamaður Hveragerðisbæjar árið 2019.
Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn á Listasafni Árnesinga á milli jóla og nýárs.
Hafsteinn var fyrirliði íslenska landsliðsins þegar það spilaði á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í sumar. Hann er einnig leikmaður í franska liðinu Calais og er þar einn af burðarásum liðsins.
Sjö einstaklingar hlutu tilnefningu til íþróttamanns Hveragerðis þetta árið en auk Hafsteins voru það Bjarki Rúnar Jónínuson, knattspyrnumaður, Björn Ásgeir Ásgeirsson, körfuknattleiksmaður, Erlingur Arthúrsson, golfari, Margrét Guanbing Hu, badmintonmaður, Rakel Hlynsdóttir, lyftingamaður og Úlfar Jón Andrésson, íshokkýmaður.
Sex íþróttamenn fengu viðurkenningar fyrir afrek sín á árinu, Íslandsmeistaratitil eða landsliðsverkefni. Það voru Margrét Guanbing Hu, sem varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik unglinga í badminton, Úlfur Þórhallsson, sem var Íslandsmeistari í einliðaleik snáða í badminton og landsliðsfólkið Björn Ásgeir Ásgeirsson, U20 ára liði Íslands í körfubolta Úlfar Andrésson, landsliðsmaður í íshokký og bræðurnir Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir, landsliðsmenn í blaki.
Björgvin Karl fékk viðurkenningu
Reglur Hveragerðisbæja um viðurkenningar til íþróttamanna gera ráð fyrir að aðeins séu veittar viðurkenningar til íþróttamanna sem stunda grein innan vébanda ÍSÍ. Í ár var aðeins breytt út af vananum og Björgvini Karli Guðmundssyni veitt viðrkenning fyrir sinn árangur í crossfit. Björgvin Karl lenti í 3. sæti á heimsmeistaramótinu í crossfit og sigraði einnig Reykjavik Crossfit Championship í apríl auk þess sem hann náði frábærum árangri á fleiri mótum.