Hafsteinn Valdimarsson, blakmaður hjá Marienlyst í Danmörku var valinn Íþróttamaður Hveragerðis 2012. Aðeins einn íþróttamaður hlýtur nafnbótina nú, en ekki tveir eins og áður.
Hafsteinn hefur leikið með Marienlyst síðan haustið 2011 og var hann í toppbaráttu allan síðasta vetur með félaginu. Hann varð bikarmeistari í Danmörku eftir sigur á Gentofte í janúar 2012 og í lok þess mánaðar vann liðið jafnframt NEVZA keppni félagsliða og eru því ríkjandi Norðurlandameistarar. Hafsteinn er landsliðsmaður í A landsliði Íslands í blaki og lék hann fjóra landsleiki á árinu.
Nú í desember var gerð sú breyting á reglugerðinni um kjör íþróttamanns Hveragerðis að þeir sem eru tilnefndir skulu hafa náð 16 ára aldri og eiga lögheimili í Hveragerði. Þó er heimilt að tilnefna ungling 14 – 16 ára sem keppir í flokki fullorðinna og er að ná það góðum árangri að hann teljist á meðal þeirra bestu í sinni íþróttagrein.
Þeir íþróttamenn sem voru í kjöri til íþróttamanna ársins 2012 voru:
*Fannar Ingi Steingrímsson, golfari
*Guðjón Helgi Auðunsson, badmintonmaður
*Hafsteinn Valdimarsson, blakmaður
*Helga Hjartardóttir, fimleikakona
*Ingþór Björgvinsson, knattspyrnumaður
*Kristján Valdimarsson, blakmaður
*Líney Pálsdóttir, hlaupari
*María Ólafsdóttir, badmintonkona
*Marín Laufey Davíðsdóttir, körfuknattleikskona
*Úlfar Jón Andrésson, íshokkímaður
Hafsteinn Valdimarsson Ljósmynd/Hveragerðisbær