Hafþór jafnaði í uppbótartímanum

Hafþór Berg og Sindri Þór sáu um markaskorun Stokkseyrar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var heldur betur dramatík í leik Stokkseyrar og Skautafélags Reykjavíkur í 5. deild karla í knattspyrnu í Laugardalnum í gærkvöldi.

Hafþór Berg Ríkharðsson kom Stokkseyri yfir á 8. mínútu leiksins en SR jafnaði strax í næstu sókn. Skautakapparnir komust síðan yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var 2-1 í leikhléi.

Stokkseyringar mættu sperrtir til leiks í seinni hálfleik og Sindri Þór Arnarson jafnaði metin á 49. mínútu. Aftur lentu Stokkseyringar marki undir tíu mínútum síðar en þeir gáfust ekki upp og eftir hetjulega baráttu á lokakaflanum náði Hafþór Berg að jafna metin á þriðju mínútu uppbótartímans og lokatölur urðu 3-3.

Stokkseyri er í 7. sæti B-riðilsins með 14 stig en SR í 5. sæti með 29 stig. Ein umferð er eftir í riðlakeppninni og tekur Stokkseyri á móti toppliði Mídasar á sunnudaginn en stórleikur umferðarinnar verður á laugardag þegar Uppsveitir og KFR mætast á Flúðum.

Fyrri greinSkaftárhlaup að hefjast
Næsta grein22 kitluðu pinnann í sólinni