Hákon Þór Svavarsson, Skotíþróttafélagi Suðurlands, jafnaði Íslandsmetið í haglabyssuskotfimi, skeet, á Íslandsmeistaramótinu sem fram fór um síðustu helgi.
Íslandsmeistaramótið í skeet fór fram í Hafnarfirði og þar var Hákon Þór í góðu formi. Í umferðunum í undankeppninni var skorið hjá honum 21, 25, 25, 25, 25, og er það í fyrsta skipti sem íslenskur skotmaður nær 100 í röð í móti í ólympísku skeet. Hákon náði þar í 121 stig af 125 mögulegum sem er jöfnun á Íslandsmetinu. Hákon endaði síðan í 3. sæti í úrslitum með 42 stig.
Hákon var ánægður með árangurinn um helgina og sagði í samtali við sunnlenska.is að hann vildi þakka árangurinn samstarfinu með þjálfaranum sínum Nikolaos Mavrommatis frá Grikklandi og einnig styrktaraðilanum Gjögur ehf sem hefur stutt dyggilega við bakið á honum siðustu tvö ár.
Skotíþróttafélag Suðurlands átti þrjá aðra keppendur á mótinu, þau Aðalstein Svavarsson, Jakob Þ. Leifsson og Helgu Jóhannsdóttur. Aðalsteinn, Hákon og Jakob sigruðu liðakeppnina með 334 stig og komust þeir allir i 6 manna úrslit. Þar varð og Jakob fimmti með 109 stig og 18 í úrslitum og Aðalsteinn sjötti með 104 stig og 10 í úrslitum. Helga varð fjórða í kvennaflokki með 87 stig og 20 í úrslitum.
Pétur Gunnarsson og Dagný Hinriksdóttir, bæði frá Skotfélagi Reykjavíkur, urðu Íslandsmeistarar í karla- og kvennaflokki árið 2020.