Hákon keppti í hitanum á Ítalíu

Hákon Þór Svavarsson. Ljósmynd/Aðsend

Hákon Þór Svavarsson, Skotíþróttafélagi Suðurlands, varð í 91. sæti af 130 keppendum í skeet á heimsmeistaramótinu í haglabyssuskotfimi sem haldið er í Lonato við Gardavatn á Ítalíu.

Hákon var með heildarskorið 112 í keppninni í dag en skotnar voru fimm umferðir, þar sem keppendur reyna sig við 25 leirdúfur í hverri umferð. Skorið hjá Hákoni var 21-25-21-23-22.

Tveir aðrir Íslendingar tóku þátt í keppninni í dag, Sigurður Hauksson varð í 53. sæti með skorið 117 og Guðlaugur Bragi Magnússon í 119. sæti með skorið 102.

Keppt var við góðar aðstæður á Ítalíu en Íslendingunum hefur eflaust þótt nóg um þar sem hitinn fór yfir 40°C við Gardavatnið í dag.

Hákon (lengst t.h.) ásamt þjálfara sínum Nikolaos Mavrommatis frá Grikklandi og Bretanum Jeremy Bird, sem varð í 3. sæti í keppninni í dag. Ljósmynd/Hákon Þór Svavarsson.
Fyrri greinMikil spenna í 2. deildinni
Næsta greinUmhverfisverðlaun afhent í Flóahreppi