Hákon Þór Svavarsson, Skotíþróttafélagi Suðurlands, er skotíþróttamaður ársins 2024 hjá Skotíþróttasambandi Íslands. Verðlaunin voru afhent í hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Hörpu í gærkvöldi.
Hákon keppti á Ólympíuleikunum í París og varð þar í 23.sæti í haglabyssugreininni skeet. Hákon keppti á fjölda erlendra móta á árinu með góðum árangri. Hann varð Íslandsmeistari í lok ágúst og jafnaði þar sitt eigið Íslandsmet í greininni, 122 stig af 125 mögulegum. Hann er nú í 43.sæti Evrópulistans.
Jórunn Harðardóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur er skotíþróttakona ársins en hún varð m.a. þrefaldur Íslandsmeistari á síðasta ári.
Fleiri Sunnlendingar voru verðlaunaðir í gærkvöldi. Eins og sunnlenska.is hefur greint frá áður er Marín Laufey Davíðsdóttir glímukona ársins, Snæfríður Sól Jórunnardóttir sundkona ársins og Ómar Ingi Magnússon handknattleiksmaður ársins. Snæfríður og Ómar voru fjarverandi í gærkvöldi en hér fyrir neðan eru Hákon og Marín með verðlaun sín á hátíðinni.