Hálandaleikar á Selfossi á sunnudag

Hinir íslensku Hálandaleikar verða haldnir á Selfossi sunnudaginn 7. júní kl. 13 á árbakkanum fyrir neðan Hótel Selfoss.

Frítt er inn á keppnina en þar er keppt í hinum hefðbundnu Skosku hálandagreinum; sleggjukasti, steinakasti, lóðkasti, lóðkasti yfir rá og staurakasti. Að venju er svo reipitog um miðja keppni þar sem keppendur togast á við börnin sem koma til að horfa á keppnina. Enn sem komið hafa börnin alltaf sigrað.

Átta keppendur eru skráðir til leiks. Matt Wanat og Juli Petterson frá Bandaríkjunum, Andreas Nilson frá Svíþjóð og Íslendingarnir Torbjörn Gylfason, Gísli Baldur Bragason, Ásgeir Bjarnason, Birgir Sólveigarson og Adam Jónsson.

Allir keppa í skotapilsum að sjálfsögðu og það verður dynjandi sekkjapípurokk á keppnissvæðinu. Kynnir verður á vellinum svo áhorfendur viti hvað gengur á. Dómarar verða risinn Tommy de Bruin frá Hollandi og geimvísindamaðurinn Svavar Sigursteinsson en þeir eru með reyndari dómurum í hálandaleikum.

Fyrri greinFyrsta tap KFR – Stokkseyri steinlá
Næsta greinSumarlestur hefst á þriðjudag