Hallaði undan fæti í seinni hálfleik

Tryggvi Sigurberg Traustason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss tók á móti Víkingi í Grill-66 deild karla í handbolta í gærkvöldi. Eftir hörkuleik framan af voru gestirnir sterkari á lokakaflanum og sigruðu 25-31.

Leikurinn var jafn lengst af fyrri hálfleik. Víkingur komst í 3-6 en þá kom góður kafli Selfyssinga sem breyttu stöðunni í 8-7. Staðan í hálfleik var 11-12.

Í seinni hálfleiknum fór að halla undan fæti hjá Selfyssingum og um hann miðjan hafði Víkingur fimm marka forskot, 19-24. Munurinn varð mestur átta mörk, 20-28, og Selfyssingum tókst ekki að svara almennilega fyrir sig á síðustu tíu mínútunum.

Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Haukur Páll Hallgrímsson skoraði 4, Gunnar Flosi Grétarsson 3, Sölvi Svavarsson, Sæþór Atlason og Hans Jörgen Ólafsson 2 og þeir Gunnar Kári Bragason og Árni Ísleifsson skoruðu 1 mark hvor.

Alexander Hrafnkelsson varði 9 skot í marki Selfoss og Karl Jóhann Einarsson varði 3.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss U er í 8. sæti með 7 stig en Víkingur er í 3. sæti með 13 stig.

Fyrri greinÞremur rannsóknarstyrkjum úthlutað
Næsta greinYfirborð Ölfusár hækkar vegna ísstíflu