Halldór Karl Þórsson mun halda áfram að þjálfa karlalið Hamars í körfubolta en hann hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Hamars til ársins 2026.
Halldór tók við liði Hamars fyrir tímabilið 2022-23, þar sem liðið vann sér aftur sæti í efstu deild eftir 12 ára veru í 1.deildinni. Gengi Hamars var hins vegar ekki gott í úrvalsdeildinni í vetur og féll liðið aftur niður um deild.
„Með þessum nýja samningi er markmið stjórnar að tryggja áframhaldandi uppbyggingu og á því góða starfi sem hefur verið unnið seinustu ár. Framundan er skemmtilegt tímabil í 1. deild og hlökkum við til að sjá liðið aftur á parketinu í haust,“ segir í tilkynningu frá Hamri.