Halldór Bjarki ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Selfoss

Halldór Bjarki á milli þeirra Guðjóns Bjarna Hálfdánarsonar gjaldkera (t.v.) og Atla Marels Vokes, formanns knattspyrnudeildarinnar. Ljósmynd/Selfoss fótbolti

Halldór Bjarki Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Selfoss og mun hann hefja störf síðar í þessum mánuði.

Halldór er 27 ára gamall og er nýlega fluttur á Selfoss úr Kópavogi en hann er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum. Hann er nú að leggja lokahönd á meistararitgerð í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands en sú ritgerð fjallar um stefnumótun íslenskra knattspyrnufélaga. Halldór er með BSc gráðu í viðskiptafræði.

Halldór kemur til knattspyrnudeildarinnar frá Samskip en þar starfaði hann sem viðskiptastjóri í innflutningsdeild fyrirtækisins. Þá hefur hann verið mikið í kringum fótboltann og þjálfaði til að mynda 3. flokk kvenna á Selfossi á síðasta ári.

„Ég er mjög spenntur og hlakka til að hefjast handa og að takast á við þetta mikilvæga starf. Ég er þakklátur fyrir traustið og tækifærið sem mér er sýnt. Ég upplifi mikinn kraft og vilja til að bæta enn frekar það góða starf sem hefur verið unnið. Selfoss er með frábæra aðstöðu í stækkandi bæjarfélagi og verður gaman að fá að taka þátt í uppgangi félagsins,” segir Halldór Bjarki.

Fyrri greinFlóðið í Hvítá eykst
Næsta greinToppliðið ekki í vandræðum á Selfossi