Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Bahrein til tveggja mánaða, fram yfir heimsmeistaramótið sem fram fer í Egyptalandi í janúar.
Halldór þekkir vel til í Bahrein en hann þjálfaði U20 árs lið þeirra á sínum tíma og vann í kringum A-landsliðið með Aroni Kristjánssyni.
„Forráðamenn handknattleiksdeildar Selfoss tóku vel í málaleitan mína að mega taka að mér þetta tímabundna verkefni með skömmum fyrirvara. Þeir vildu ekki leggja stein í götu mína, ekki síst í ljósi aðstæðna hér heima. Ef eðlilegt ástand ríkti hér á landi og handboltinn væri á fullri ferð þá hefði ég afþakkað tilboðið frá Barein,“ segir Halldór Jóhann í samtali við handbolti.is.
„Það er eftirvænting í manni að taka við þessu starfi og margir óvissuþættir og þess vegna er gott að fara út snemma og meta stöðuna. En HM er framundan og verði af mótinu þá eigum við leik við heimsmeistara Danmerkur í fyrstu umferð. Fyrst og fremst hefði þetta aldrei orðið að veruleika nema vegna þess að forráðamenn Selfoss voru jákvæðir frá fyrsta degi að gefa mér þetta tækifæri sem er mjög faglegt og gott hjá þeim,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, nýráðinn landsliðsþjálfari Barein í samtali við handbolta.is.
Hvað taki við eftir 1. febrúar sagði Halldór að ekki hafi verið rætt um á milli sín og Bareinbúa. Næsta sumar stendur til að halda Ólympíuleika þar sem Barein hefur þegar tryggt sér keppninsrétt. Hvort Halldór Jóhann stendur í stafni þegar að leikunum kemur sagði hann ekki hafi verið rætt.