Hamar situr eftir í 1. deild karla í körfubolta en liðið tapaði í kvöld í fjórða leiknum í einvíginu gegn Breiðabliki, 110-84, á útivelli.
Breiðablik vann því einvígið 3-1 og leikur í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Eins og fyrri leikirnir í einvíginu var leikurinn í kvöld hnífjafn lengst af. Staðan var 51-47 í leikhléi og í upphafi 4. leikhluta var staðan 77-75, Breiðablik í vil. Þá kom ótrúlegur kafli hjá Blikum sem skoruðu 24 stig gegn 4 stigum Hamars. Blikar kláruðu leikinn þarna á rúmum fimm mínútum og eftirleikurinn var þeim auðveldur.
Ísak Sigurðarson var bestur í liði Hamars í kvöld og stigahæstur með 16 stig. Julian Nelson átti góðan leik þær 20 mínútur sem hann spilaði en Larry Thomas skilaði engu framlagi sínar 20 mínútur.
Tölfræði Hamars: Ísak Sigurðarson 16/8 fráköst, Larry Thomas 14/6 fráköst, Julian Nelson 13/6 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 12, Dovydas Strasunskas 11/5 fráköst, Oddur Ólafsson 7/6 stoðsendingar, Smári Hrafnsson 6, Arnór Ingi Ingvason 3, Mikael Rúnar Kristjánsson 2, Jón Arnór Sverrisson 5 stoðsendingar.