Hamar áfram í bikarnum

Hamar lagði KH á útivelli í 2. umferð Valitor-bikars karla í knattspyrnu í kvöld, 0-7, og mætir KFS í 32-liða úrslitum keppninnar.

Hamar og KH þurftu að spila um sæti Léttis í 32-liða úrslitunum en Léttismenn voru dæmdir úr leik í bikarnum eftir að hafa notað ólöglegan leikmann gegn KH í 1. umferð bikarsins. í 2. umferð sló Léttir svo Hamar út en sá leikur var látinn niður falla vegna kærunnar.

Hamar hafði nokkra yfirburði gegn KH í kvöld og leiddu 0-3 í hálfleik. Einar Már Þórisson skoraði tvö mörk fyrir Hamar en Vilhjálmur Vilhjálmsson, Alexander Lúðvíksson, Arnþór Ingi Kristinsson, Haraldur Hróðmarsson og Björn Ívar Björnsson skoruðu allir eitt mark.

Leikur Hamars og KFS í 32-liða úrslitunum verður leikinn á Grýluvelli fimmtudaginn 26. maí kl. 18.

Fyrri greinSuðurland undir landsmeðaltali í samræmdum prófum
Næsta greinBest að vinna hjá Önnu Birnu